Ávarp forstjóra

Ágæti lesandi. 

Árið 2022 var um margt óvenjulegt ár enda einkenndist það af miklum sveiflum sem höfðu áhrif á rekstur Alcoa Fjarðaáls. Í upphafi árs rauk álmarkaðsverð upp í áður óséðar hæðir en hrapaði svo fljótlega aftur niður. Á sama tíma fór verð á hráefnum hækkandi svo árið sem hófst afar vel endaði ekki jafn vel ef horft er til afkomu og reksturs. Úkraínustríðið og orkukreppa sem fylgdi í Evrópu höfðu mikil áhrif og það hrikti í aðfangakeðjum.

Þrátt fyrir þessar sveiflur skilaði Alcoa Fjarðaál góðu rekstrarári og ánægjulegt var að fylgjast með starfseminni ná auknum stöðugleika eftir nokkuð strembin ár þar á undan vegna óstöðugleika í rekstri kerskála. Stærsta verkefni síðasta árs var að byggja upp kerlínuna til að ná á ný fullri framleiðslugetu.

Meðal annarra stórra verkefna á síðasta ári voru breyting á vaktakerfi vaktavinnustarfsfólks sem telur um 2/3 hluta starfsmanna og nánar má lesa um í mannauðskafla þessarar skýrslu. Þá var unnið að því með Umhverfisstofnun að uppfæra starfsleyfi og vöktunaráætlun verksmiðjunnar sem byggir á því eftirliti sem hefur verið til þessa.

Síðustu sjö ár hefur Alcoa Fjarðaál gefið út samfélagsskýrslu sem fylgir stöðlum GRI um samfélagsskýrslugerð og þá fylgir félagið einnig þeim heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna sem samræmast starfsemi og stefnu okkar í samfélagsábyrgð. Við einblínum á sex af þeim sautján heimsmarkmiðum um sjálfbæra þróun sem Sameinuðu þjóðirnar hafa innleitt. Í yfirliti yfir markmið okkar í samfélagsábyrgð 2023 má sjá hvernig heimsmarkmiðin tengjast markmiðum fyrirtækisins í samfélagsmálum.

Alcoa Fjarðaál vill ganga á undan með góðu fordæmi og vera fyrirmynd annarra fyrirtækja þegar kemur að samfélagsábyrgð. Við leggjum áherslu á að vinna náið með nærsamfélaginu og hagsmunaaðilum og gegnsæ upplýsingagjöf er mikilvæg í því sambandi. Gott dæmi um slíkt er einmitt þessi skýrsla en hún verður nú í fyrsta skipti þýdd á ensku svo hún sé aðgengileg fyrir viðskiptavini okkar sem allir eru erlendis.  
Alcoa Fjarðaál er eitt stærsta iðnfyrirtæki landsins. Á síðastliðnu ári flutti félagið út vörur fyrir 143 milljarða króna (1.054M USD) og þar af urðu 43 milljarðar króna eða 30% eftir í landinu. Þá greiddi fyrirtækið ríflega einn milljarð króna í skatta og opinber gjöld á Íslandi og ljóst er að í ár mun fyrirtækið í fyrsta skipti greiða tekjuskatt af rekstrinum.

Samfélagsskýrslan er aðgengileg rafrænt á slóðinni samfelagsskyrsla.alcoa.is en þar eru upplýsingar um samfélagsábyrgð og starfsemi fyrirtækisins aðgengilegar öllum. Enn fremur er sú leið valin að gefa skýrsluna út rafrænt til að lágmarka umhverfisspor við útgáfuna.

Hafi fólk ábendingar eða athugasemdir er velkomið að senda póst á fjardaal@alcoa.com

Njótið lestursins. 
Einar Þorsteinsson
forstjóri Fjarðaáls