Ávarp forstjóra

Ágæti lesandi

Árið 2020 var um margt óvenjulegt ár. Vegna COVID-19 stóðum við frammi fyrir áskorunum sem okkur hafði aldrei órað fyrir og fyrirtæki eins og okkar urðu með litlum fyrirvara að aðlaga starfsemi sína að nýjum háttum til þess að draga úr hættunni á því að reksturinn færi úr bönd­unum. COVID-19 hefur haft gífur­lega mikil áhrif á okkur öll, á hegðun okkar, samskiptaleiðir, vinnubrögð og boðskipti. Sumir einstaklingar og fjölskyldur þeirra hafa orðið fyrir hörmulegri reynslu sem aldrei gleymist. Við erum ekki enn laus við hættuna vegna heimsfaraldursins en starfsmenn Alcoa Fjarðaáls hafa siglt snilldarlega á milli skers og báru í þessum ókannaða ólgusjó, allir sem einn. Fyrir það er ég bæði stoltur og þakklátur.

Í þessum þrengingum tókst okkur að ná stöðugleika í kerskála, meðal annars með nýjum verkferlum og breyttu fyrir­komulagi í mönnun. Góður árangur varðandi jafnrétti kynjanna endurspeglast í því að kynjahlutfallið meðal starfsfólks, sem var 22% konur á árinu 2019 jókst í 25% á árinu 2020. Þá hafa konur verið um 45% nýráðinna starfsmanna síðustu tvö ár. 

Við innleiddum og endurbættum fjölda verkefna varðandi rafrænar lausnir til þess að hámarka afkastagetu búnaðar og starfsmanna og okkur tókst að ljúka þremur veigamiklum viðhaldsverkefnum sem tengjast allsherjar yfirhalningu í steypuskála. Á árinu fengum við tíma­bundna vottun ASI og við hlutum hæstu einkunn fyrir þá þætti sem voru teknir fyrir. Í heildina séð, þó svo að árið 2020 hafi verið á ýmsan hátt erfitt, höfum við verið yfirveguð, einbeitt og ákveðin í að ljúka því sem við einsettum okkur.

Síðustu fimm ár hefur Alcoa Fjarðaál gefið út samfélagsskýrslu sem fylgir stöðlum GRI um samfélagsskýrslugerð og þá fylgir félagið einnig þeim heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna sem samræmast starfsemi og stefnu okkar í samfélagsábyrgð. Við einblínum á sex af þeim sautján heimsmarkmiðum um sjálfbæra þróun sem Sameinuðu þjóðirnar hafa innleitt. Í yfirliti yfir markmið okkar í samfélagsábyrgð 2021 má sjá hvernig heimsmarkmiðin tengjast markmiðum fyrirtækisins í samfélagsmálum. 

Fjarðaál vill ganga á undan með góðu fordæmi og vera fyrirmynd annarra fyrirtækja þegar kemur að samfélagsábyrgð. Við leggjum áherslu á að vinna náið með nærsamfélaginu og hagsmunaaðilum og gegnsæ upplýsingagjöf er mikilvæg í því sambandi. Gott dæmi um slíkt er einmitt þessi skýrsla. 

Fjarðaál er eitt stærsta iðnfyrirtæki landsins. Á síðastliðnu ári flutti félagið út vörur fyrir rúma 82 milljarða króna (610M USD) og þar af urðu 31,6 milljarður króna eða 38% eftir í landinu. Þá greiddi fyrirtækið ríflega einn milljarð króna í skatta og opinber gjöld á Íslandi. 

Við reyndum eftir bestu getu að hlúa að starfsfólki okkar á álagstímanum á síðasta ári en sökum samkomutakmarkana var lítið um starfsmannaskemmtanir og slíkt. Við buðum þó starfsfólki í óhefðbundið jólahlaðborð þar sem tónlistar- og skemmtidagskrá var send út í streymi frá Egilsbúð í Neskaupstað í samstarfi við starfsmannafélagið Sóma og fólk sótti sér hátíðarmat í boði fyrirtækisins og snæddi heima.

Á síðastliðnu ári héldum við áfram í veg­ferð okkur í jafnréttismálum og í sam­starfi við alþjóðlega ráðgjafafyrir­tækið Empower héldum við áfram innleiðingu á Jafnréttisvísi en þar sem Covid setti strik í reikninginn þá var fund­um sem áttu að vera árið 2020
frestað til 2021. Markmið Fjarðaáls hefur ávallt verið að hafa jöfn kynjahlutföll og á síðasta ári náðum við að auka hlutfall kvenna, annað árið í röð, þrátt fyrir að við eigum enn langt í land. Nú eru konur um 25% þeirra sem starfa hjá Fjarðaáli.

Samfélagsskýrslan er aðgengileg rafrænt á slóðinni https://alcoa.samfelagsskyrsla.is en þar eru upplýsingar um samfélagsábyrgð og starfsemi fyrirtækisins aðgengilegar öllum. Enn fremur er sú leið valin að gefa skýrsluna út rafrænt til að lágmarka umhverfisspor við útgáfuna.

Hafi fólk ábendingar eða athugasemdir er velkomið að senda póst á fjardaal@alcoa.com.

Njótið lestursins. 

Tor Arne Berg
forstjóri Fjarðaáls