Umhverfi

Alcoa Fjarðaál vinnur að því að lágmarka neikvæð umhverfisáhrif af starfseminni með markvissum aðgerðum og setur sér metnaðarfull innri markmið í umhverfismálum á ári hverju. Fyrirtækið hefur frá því að álverið hóf rekstur staðið fyrir yfirgripsmikilli umhverfisvöktun í Reyðarfirði í samræmi við vöktunaráætlun sem er samþykkt af Umhverfisstofnun. Niðurstöður eru birtar árlega í ársskýrslu sem er aðgengileg á heimasíðum Alcoa Fjarðaáls og Umhverfisstofnunar. Tilgangur umhverfisvöktunarinnar er að meta áhrif starfsemi álversins á umhverfið í nágrenni þess. Helsta uppspretta mengandi efna frá framleiðslunni í lofti er útblástur frá kerskála. Sá útblástur fer annars vegar upp um rjáfur skálanna og er hins vegar sogaður burt frá kerum og leiddur um þurrhreinsivirki eins og lýst er í kafla 6.1 um framleiðsluferli.

Grænt bókhald
Lykiltölur varðandi framleiðslu, hráefnis- og auðlindanotkun koma fram í kafla 7.2. sem er tafla yfir Grænt bókhald. Töfluna má sjá á bls. 20.

Hráefnis- og auðlindanotkun
Framleiðsla áls árið 2022 var 331.574 tonn sem er hækkun um tæp 14 þúsund tonn milli ára. Aukningin milli ára skýrist af auknum stöðuleika og fleiri kerum í rekstri í kerskála.

Heildar rafmagnsnotkun á hvert framleitt tonn af áli var 14.454 kwh sem er svipuð raforkunotkun á hverja framleiðslueiningu milli ára. Rístími lækkaði milli ára með auknum stöðukeika og færri kerlekum en árin á undan. Þar af leiðandi var lækkun á losun PFC efna frá starfseminni. Losun CO2 lækkaði einnig milli ára í kjölfar aukins stöðugleika í kerskála. Notkun álflúoríðs jókst lítillega eða um 571 tonn milli ára vegna aukinnar framleiðslu. Heildar flúorlosun á hvert framleitt tonn af áli lækkaði milli ára og var innan ársmeðaltals starfsleyfis.

Flúor í grasi er mældur yfir sumartímann og voru þær mælingar undir viðmiðunarmörkum vöktunaráætlunar sumarið 2022, sjá nánar í kafla 7.5. Fylgst var með HF styrk í andrúmslofti á vöktunarstöðvunum líkt og fyrri ár.

Árið 2022 var stuðlað að auknum stöðugleika með töluverðum umskiptum á kerum og er reiknað með að ná jafnvægi í framleiðslu árið 2023 með fleiri kerum í rekstri en árin á undan. Samtals voru endurfóðraðar 75 kerskeljar í kersmiðju Fjarðaáls sem rekin er af verktökum. Alls voru notuð um 1.500 bakskaut til þess að fóðra skeljarnar árið 2022. Líkt og árin á undan var notaður umhverfisvænni þjöppusalli en áður hefur verið gert í endurfóðrunarferlinu, samtals um 607,5 tonn.

Allt kælivatn frá iðnaðarferlum er hreinsað í vatnshreinsivirki og endurnýtt í steypuskála, en vatnsnotkun Fjarðaáls er með því lægsta sem þekkist innan Alcoa samstæðunnar. Vatnsnotkun minnkaði á milli ára og var ferskvatnsnotkun árið 2022 um 72.852 m3. Þar af nýttu hleifasteypuvél og HDC lárétta steypuvélin í steypuskála Fjarðaáls um 52.545 m3. Á hverjum sólarhring eru 3.500 rúmmetrar af vatni hreinsaðir í vatnshreinsivirki Fjarðaáls og endurnýttir í steypuskálanum. Þar af fóru 16.662 m3 af vatninu í gegnum eimara árið 2022. Meðaltals uppgufun frá steypuvélum er 140 m3 á sólarhring sem er um 40% uppgufun af rúmmáli kerfisins. Engu kælivatni frá iðnaðarferlum er veitt í frárennsli. Jafnframt er hluti varmans sem myndast frá kælivatni nýttur til húshitunar og snjóbræðslu á lóðinni.

Samanlögð notkun jarðefnaeldsneytis á farartæki jókst frá fyrra ári um 14.502 L. Notkun á dísilolíu jókst úr 444.469 L í 457.964 L á milli áranna 2021 og 2022. Notkun á bensíni jókst úr 13.077 L í 14.084 L. Skýringin á hækkuninni tengist aukinni framleiðslu sem kallar á aukinn aksturstíma farartækja innan fyrirtækisins. Aukin notkun á jarðefnaeldsneyti árið 2022 samsvarar hækkun í losun um 39 tonn ígilda CO2. Þegar aksturstímar ársins 2022 voru bornir saman við árið 2021 kom í ljós að aksturstími vinnutækja á álverslóð jókst um 3.171 klukkustund. Sjá nánar um aksturstíma ökutækja í töflu 1.

Própan er notað til forhitunar á búnaði í steypuskála, m.a. mótum á hleifasteypuvél. Notkun própans lækkaði milli ára um 62.721 L en skýringin á því er að árið 2022 var unnið að umbótum á hleifasteypuvél sem lágmarkar gas forhitun móta auk þess sem framleiðsla á hleifasteypuvélinni var stöðugari en árið áður. Með stöðugari framleiðslu verður mikið minni þörf á forhitun móta. Heildarnotkunin nemur minni losun sem samsvarar um 82 tonnum CO2 ígilda.

Í töflu 2 er yfirlit yfir orkunotkun úr þeim eldsneytisgjöfum sem notaðir voru á svæðinu, en heildarorkunotkun í gígajúlum dróst saman um 13% árið 2022 miðað við árið á undan og kemur það aðallega til vegna minni notkunar á própani.  

Hlutfallsleg skipting og ráðstöfun úrgangs árið 2022

Samfélagsmarkmið og árangur

Að bein losun frá framleiðslu lækki um 0,5 – 1% á árinu 2018, með bættri nýtingu kolefnis í framleiðslu

Bein losun frá framleiðslu jókst á árinu um 0,3%. Óstöðugleiki ársins 2018 varð til aukningar á losun, en stöðug vinna er í gangi til að bæta nýtni hráefna í átt að minnkaðri losun.

Að við útskipti á ökutækjum verði valinn umhverfisvænni/minna mengandi kostur.

Endurnýjun á ökutækjum gekk ekki eftir eins og var áætlað 2018. Þó voru tveir nýir raflausnarbílar keyptir inn á árinu sem að leysa ríflega 10 ára gamla bíla af hólmi. Þeir eru dísilknúnir og sparneytnari en fyrirrennarar þeirra og voru teknir í umferð í lok ársins 2018.

Óbein losun gróðurhúsalofttegunda eða losun frá hliðarstarfsemi framleiðslunnar (e. scope 2) verður kortlögð og sett verður upp aðgerða-áætlun fyrir kolefnisbindinu í átt að kolefnishlutleysis starfseminnar (utan ETS).

Þessu var slegið á frest en verður unnið samhliða innleiðingu á ASI staðli á árinu 2020.

Greind verður kolefnislosun frá samgöngum, flutningi vara og framleiðslu.

Þessu var slegið á frest en verður unnið samhliða innleiðingu á ASI staðli á árinu 2020.

Innleitt verður reglulegt eftirlit með notkun og skiptingu jarðefnaeldsneytis farartækja innan lóðar.

Þetta hefur ekki verið innleitt og þarf að kanna betur umfang á verkefninu og hvort mögulegt verður að framfylgja því á árinu 2020.

Stefnt er á að lágmarka magn almenns úrgangs frá starfseminni um að minnsta kosti 10% frá árinu 2018.

Almennur úrgangur jókst á milli ára svo markmiðið náðist ekki. Unnið verður að því áfram að leita leiða til að minnka myndun úrgangs.

Standast vottun gagnvart ASI staðli á árinu

Markmið stóðst en Alcoa Fjarðál var tekið út gagnvart ASI staðlinum í september 2020. Þar sem vottunin var gerð í fjarfundum vegna COVID er vottunin tímabundin þangað til úttektaraðilar komast á staðinn til að ljúka vottuninni. Sjá nánar í kafla 9 um samfélagsmál.

Skipta út díselknúnum lyfturum fyrir rafmagnslyftara

Markmið stóðst en Fjarðaál fjárfesti í upphafi árs í sex nýjum liþínknúnum lyfturum. Sjá nánar í kafla 9 um samfélagsmál.

Að HF losun á framleitt tonn verði undir 0,250 kg/t

Markmið stóðst ekki þar sem heildarlosun var 0,34 kg/t árið 2020.

Standast kröfur gagnvart ISO 50001 um orkunýtni

Markmið stóðst ekki þar sem ákveðið var að fresta þessari innleiðingu.

Hefja gróðursetningu í hlíðinni fyrir ofan kerskála Fjarðaáls

Markmið stóðst. Haustið 2021 var hafist handa við að undirbúa jarðveginn fyrir ofan kerskálann fyrir plöntun. Verkefnið er unnið í samstarfi við Skógræktarfélag Reyðarfjarðar og sá það um að planta fyrstu plöntunum síðasta haust. Haldið verður áfram með verkefnið næstu ár og er næsta plöntun fyrirhuguð vorið 2022. 

Vinna að endurvinnsluleið fyrir kerbrot (SPL)

Markmið stóðst. Þrátt fyrir að lausnin sé ekki komin fór mikil vinna í að leita að nýjum leiðum. Það endaði með því að sett var af stað verkefni að skoða þessi mál heildrænt hjá Alcoa og er kominn verkefnastjóri í Evrópu sem vinnur að því að finna varanlega leið til endurvinnslu kerbrota.

Heildarlosun flúors á framleitt tonn áls verði undir 0,32 kg/t

Markmið stóðst ekki þar sem losunin var 0,34 kg/t.

Bæta nýtingu kolefnis um 1,6% milli ára

Markmið stóðst ekki þar sem bæting var um 1%.

Taka þátt í Evrópuverkefni vegna úrgangsmála

Markmið stóðst og vinna er hafin við að hanna nýtt ferli í samstarfi við hollenskt fyrirtæki um endurvinnslu kerbrota. Niðurstöður prófana lofa góðu þótt endanlegt ferli sé ekki komið í gagnið.

Tryggja endurbætur á hreinsivirki til að minnka flúorlosun

Markmið stóðst að hluta, unnið var að því árið 2022 að skipta út pokum í hreinsivirki en þeirri vinnu er ekki að fullu lokið og heldur áfram árið 2023.

Umhverfiskaflann má finna á bls. 22 – 31.